139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

úrræði fyrir skuldara.

[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefði verið gaman og upplýsandi í þessari umræðu ef komið hefði fram hvað hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja gera í þessu efni. Eru þeir tilbúnir að fara í almenna niðurfærslu og þá hvernig? Þetta er ekkert auðvelt viðfangsefni, ég geri mér fullkomlega grein fyrir því. Ef það kostar mikil útgjöld fyrir ríkissjóð, ef á annað borð verður farið í það þarf auðvitað að endurskoða efnahagsprógramm ríkisstjórnarinnar, það er alveg ljóst, vegna þess að stærstur hluti af verðtryggðum lánum, eða um 700 milljarðar af 1.000 milljörðum, eru hjá Íbúðalánasjóði sem er ekki vel staddur um þessar mundir. Málið er því ekki auðvelt viðfangs. En það væri líka mjög gott að vita hvort það er breið samstaða um það á þingi að fara í einhvers konar niðurfærslu. Ég hef ekki heyrt það hjá sjálfstæðismönnum og það skiptir auðvitað máli hvort samstaða er um málið á þingi.

Varðandi framfærsluviðmiðið get ég alveg tekið undir það með hv. þingmanni og það er einmitt það sem verið er að skoða, að hækka framfærsluviðmiðið umfram það sem er hjá umboðsmanni skuldara, þ.e. þegar kemur að (Forseti hringir.) úrræðum í bönkum. Og það er líka verið að skoða það viðmið sem notað er í bönkum um að ekki sé sértæk skuldaaðlögun fyrir þá (Forseti hringir.) sem eru með undir 110% veðsetningu. Hugmyndin núna er að skoða í samráði við bankana hvort ekki sé hægt að lækka það viðmið.