139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

kostnaður við niðurfærslu skulda.

[14:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum farið yfir þetta með Hagsmunasamtökum heimilanna og þau hafa nefnt þá tölu sem hv. þingmaður nefndi, 220 milljarða. Þar sjá menn þetta þannig að 75 milljarðar af þessum 220 milljörðum falli á lífeyrissjóðina. Þá er gert ráð fyrir að ekkert falli á Íbúðalánasjóð heldur komi þessi hluti allur á lífeyrissjóðina en hinn hlutinn sem vantar upp á 220 milljarðana gera þeir ráð fyrir að komi úr bankakerfinu. Þeir álíta svigrúmið innan bankanna vegna þeirra færslna sem urðu milli gömlu og nýju bankanna sé miklu meira en bankarnir gera ráð fyrir.

Það eru akkúrat þessir hlutir sem við erum að ganga úr skugga um þessa dagana með þeim samtölum sem við eigum og fundum næstu daga m.a. með bönkum, lífeyrissjóðum og Hagsmunasamtökum heimilanna þar sem allir þessir aðilar koma að borðinu og ræða þessi mál og geta átt samræður um hvað sé mögulegt í þessu efni.

Ég geri mér alveg fyllilega ljóst eins og allir hér inni að ríkissjóður hefur lítið sem ekkert svigrúm, raunar ekkert svigrúm til að taka á sig miklar niðurfærslur þannig að þetta þarf að vera í samningum milli allra aðila. Ef til þess kemur að ríkissjóður þurfi að taka a sig frekari skuldbindingar er alveg augljóst að endurskoða þarf efnahagsprógramm ríkisvaldsins. Spurningin er hvort það sé skynsamlegt vegna þess að allur frestur á því að taka á þeim vanda sem við er að glíma kemur niður á velferðarkerfinu í því formi að við þurfum að greiða miklu hærri vexti en ella. Þetta eru auðvitað spurningar sem við þurfum að vega og meta og eru ekki auðveldar viðfangs og þess vegna erum við að kalla alla aðila að þessu borði. Það er alveg ljóst að ef lánin eru færð niður má segja að það gæti aukið gæði lánasafnanna inni í bönkunum og fólk hafi meira (Forseti hringir.) umleikis. Ég skal svo í síðara svari mínu koma að því sem ég ætlaði að segja í viðbót.