139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

kostnaður við niðurfærslu skulda.

[14:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hélt satt að segja að það þyrfti hvorki að bjóða Sjálfstæðisflokknum né Framsóknarflokknum eða stjórnarandstöðu þátttöku við ríkisstjórnarborðið í ríkisstjórninni til þess að hafa vilja til að setjast með okkur til að leysa þann brýna vanda sem við er að glíma. (Gripið fram í: Ekki í atvinnumálunum.)

Ég vil líka nefna það af því að talað er um forsendubrest að við viðurkennum og höfum gert það að það er mjög alvarlegur vandi hjá fjölda heimila í landinu. Við sjáum það í gegnum tölur hjá Íbúðalánasjóði þegar 35% af upphæð Íbúðalánasjóðs tengjast lánum með yfir 100% veðsetningu. Það er þetta sem við höfum áhyggjur af vegna þess að þarna er um að ræða 22 þúsund einstaklinga. 20% af upphæðinni hjá Íbúðalánasjóði eru með 80–90% veðsetningu og 15% eru í vanskilum. Þetta talar sínu máli um það að við gífurlegan vanda er að etja. Ég hef líka (Forseti hringir.) miklar áhyggjur af fólki, ungu fólki sem hefur verið að kaupa sér húsnæði á síðustu tveimur til þremur árum. Við getum ekki búið við það að þeim sé boðið upp á að sitja með 40–50% skuldabyrði næstu 20–30 árin.