139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn hans. Það er alveg satt og rétt að í vor töldum við að með þeim úrræðum sem við settum fram hefðum við náð utan um skuldavanda heimila eins og hann blasti við þá en við sögðum jafnframt að við mundum fylgjast náið með framvindunni hvort þetta dygði og grípa til aðgerða ef það mundi ekki duga. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera.

Skuldavandinn er mikill, ég fór yfir tölur áðan. Ég get líka nefnt að samkvæmt tölum sem hafa komið fram, t.d. í einum fjölmiðli í dag, um vanskil þá voru af þeim 22 þúsundum sem núna eru í vanskilum 16.400 í vanskilum fyrir hrun. Það hafa því bæst við 6–7 þús. manns sem vissulega er mikið en þó verður að hafa í huga að þessi vandi var til staðar líka fyrir hrun, m.a. vegna þess að hér voru lagðar niður félagslegar lausnir, félagslegt íbúðakerfi. Við verðum bara að horfast í augu við það að stór hluti fólks ræður ekki við hóflegar íbúðir jafnvel þó að þær væru á hagstæðum kjörum og því þurfa að vera til félagslegar lausnir. Að því er ríkisstjórnin m.a. að vinna og vonandi sést niðurstaða í því fljótlega.

Varðandi skattkröfurnar tek ég vissulega undir það með hv. þingmanni að þetta er vandamál og er eitt af því sem er uppi á borðum ríkisstjórnarinnar að leysa og vinna úr. Þetta er töluvert erfitt viðfangs af því að verið er að innheimta fyrir þriðja aðila og það þarf að taka á því. En ég get tekið undir það með þingmanninum að þetta er úrlausnarefni sem við erum að skoða og þarf að leysa. Og ef hann sæti nú að borðinu með okkur í ráðherranefndinni ásamt fulltrúum Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar mundi hann hafa vitneskju um að þetta er mál sem við erum að taka á og erum að skoða ýmsar aðferðir til að vinna úr.