139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:26]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er rétt varðandi þessar tölur en svo er spurning í hve miklum vanda þessi hópur, 6–7 þús. manns sem hefur bæst við, er í. Ég held að við höfum fengið veigamiklar upplýsingar í þeim hringingum sem fram fóru um helgina, sem ekki hefur verið gert áður, og ég tel að halda þurfi áfram, ekki bara núna fyrir næsta mánuð heldur fyrir næstu mánuði, að hringja í það fólk sem er að lenda með íbúðir sínar á nauðungarsölu og sjá hvort þau úrræði sem við höfum geti ekki hjálpað því. Ég er sannfærð um að í mörgum tilvikum væri hægt að forða fólki frá nauðungarsölu, líka með þeim viðbótarúrræðum sem við erum með, m.a. því sem var samþykkt í morgun að setja fólk strax í skjól þegar það er búið að leggja inn umsókn hjá umboðsmanni skuldara. Ég tel að það sé gífurlega mikilvægt úrræði fyrir þá sem verst standa.

Síðan vil ég segja að Alþingi tók vel höndum saman í vor og kom með víðtæk úrræði (Forseti hringir.) til að leysa skuldavanda heimilanna. Ég vona að það gerist aftur að við getum tekið höndum saman um þessu brýnu viðfangsefni og hvet Sjálfstæðisflokkinn til að koma að því borði.