139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

hagræðingarkrafa í heilbrigðiskerfinu.

[14:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, fyrir fyrirspurnina og þann skilning sem hún hefur látið í ljós um þær breytingar sem unnið er að varðandi heilbrigðismálin. Hv. þingmaður þekkir öðrum betur þá umræðu sem farið hefur fram á undanförnum árum og mikilvægi þess að farið sé heildstætt yfir þjónustuna í landinu og hún endurskipulögð. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er auðvitað æskilegt í málefnum eins og heilbrigðismálum að horft sé til langs tíma og menn hafi skýra sýn fram til lengri tíma. Ég hef tjáð mig um það eftir að ég varð heilbrigðisráðherra að það eigi að vera óháð flokkslínum eða flokkadráttum vegna þess að um kerfi eins og heilbrigðiskerfið sem og menntakerfið og álíka þjónustu á auðvitað að vera þjóðarsátt í meginatriðum þannig að menn viti hvert þeir stefna og hvers skuli gæta.

Þegar fjárlagafrumvarpið kom fram kynnti ég það strax að ég mundi fara yfir þessar tillögur og hef kallað eftir því að öll heilbrigðisumdæmin verði heimsótt með fagfólki og farið verði yfir hvaða afleiðingar tillögurnar hafi á viðkomandi svæði. Í framhaldi af því mun ég hitta framkvæmdastjóra og forstjóra heilbrigðisstofnananna til að skoða þessar hugmyndir enn frekar og hafði áskilið mér rétt til að koma með tillögur inn í fjárlaganefnd fyrir 2. umr. um með hvaða hætti hugsanlegt væri að gera þetta öðruvísi. Þar er, eins og hv. þingmaður kom að í fyrirspurn sinni, um tvennt að ræða ef hægt verður að ná samstöðu um að fara hægar í þetta með því að minnka aðhaldskröfuna á heilbrigðisþjónustuna eða með því að færa til innan þessa niðurskurðar þar sem þá lendir meira á þeim sem fengu hóflegan eða lítinn sem engan (Forseti hringir.) niðurskurð í frumvarpinu, taka meira af þeim og færa til þeirra stofnana sem harðast verða úti í niðurskurðinum.