139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

afstaða dómsmálaráðherra til fjárlagafrumvarpsins.

[14:39]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu vil ég stuðla að hagvexti og það er forsenda sem við gefum okkur í fjárlagafrumvarpinu að stuðla að hagvexti. En við viljum gera það með fyrirhyggju að sjálfsögðu. (Gripið fram í: Hvernig?) Áður en maður reisir álver eða tekur ákvörðun um meiri háttar fjárfestingar af þessu tagi þarf að hafa verið búið um alla hnúta. Það hefur ekki verið gert. Vandi Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að atvinnuuppbyggingu og atvinnustefnunni er einsýnin. (Gripið fram í.) Það er eitt auga í miðju enni og aldrei horft til annarra átta. (Gripið fram í.) Það er ál eða ekkert. Við þurfum að losna úr þessum viðjum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur reyrt í atvinnumálaumræðu á undanförnum árum. Við þurfum að komast út úr þessum farvegi. Við þurfum að opna hugann og leita annarra lausna en þessarar einu sem Sjálfstæðisflokkurinn kemur auga á, ál eða dauði. Það eru til aðrar lausnir (Forseti hringir.) í atvinnuuppbyggingu á Íslandi. [Frammíköll í þingsal.]