139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[14:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið talað um að mikilvægt sé að framkvæmdarvaldið umgangist þingið af tilhlýðilegri virðingu. Hæstv. ráðherra dóms- og mannréttinda, samgöngu- og sveitarstjórnarmála var spurður mjög einfaldrar spurningar sem ég hélt að mundi ekki vefjast fyrir nokkrum einasta ráðherra að svara. Spurningin var þessi: Styður hæstv. ráðherra fjárlagafrumvarpið?

Hæstv. ráðherra hefur gert tvær atrennur að því að svara þessari einföldu spurningu og hann treystir sér ekki til að svara henni. (Gripið fram í: Hann getur það ekki.) Ég held að svar hæstv. ráðherra sé orðið mjög skýrt. Hann treystir sér ekki til að segja okkur í þinginu eða þjóðinni að hann styðji fjárlagafrumvarpið. Því var að vísu haldið fram að það hefði verið einhvers konar gagngjald fyrir setu hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni, að það væri verið að tryggja stuðning við fjárlagafrumvarpið. Nú er ég farinn að efast um að það sé rétt. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra treystir sér ekki til að svara þeirri einföldu spurningu hvort hann styðji fjárlagafrumvarpið. (Gripið fram í: Hann verður að svara.)