139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

kosning saksóknara Alþingis og varasaksóknara, skv. 13. gr. laga nr. 3 19. febr. 1963, sbr. ályktun Alþingis 28. sept. 2010 um málshöfðun gegn ráðherra.

[14:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kýs að kveðja mér hér hljóðs við þessa kosningu í tilefni af því að sjálfstæðismenn á Alþingi studdu ekki þá ákæru sem er undanfari þeirrar kosningar sem hér fer fram. Af þeirri ástæðu munum við ekki taka afstöðu til þess hvern beri að setja í sæti saksóknara í þessu máli, það verður þá þeirra sem báru uppi ákæruna og studdu hana að taka afstöðu til þess og með því er ekki nokkurri rýrð varpað á neinn þann sem kemur til greina í það embætti. Það hlýtur samt sem áður að vekja athygli að blaðaviðtölin hafa verið tekin nú þegar u.þ.b. fimm dögum áður en kosningin fer fram og Alþingi ákveður hverjir eigi að setjast í sæti saksóknara. Við erum nú þegar búin að lesa afar ítarleg viðtöl í dagblöðunum, ekki bara við aðalsaksóknarann heldur líka við varasaksóknarann sem virðist eiga að gegna einhvers konar aðstoðarmannshlutverki sem ég finn ekki neinn fót fyrir í lögum. (Forseti hringir.)