139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

kosning í saksóknarnefnd, skv. 13. gr. laga nr. 3 19. febr. 1963, sbr. ályktun Alþingis 28. sept. 2010 um málshöfðun gegn ráðherra, fimm manna skv. hlutfallskosningu.

[15:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í tilefni af þessari kosningu sem hér fer fram, um saksóknara og varasaksóknara, skiptir miklu máli að forseti Alþingis hefur nú svarað lögmanni þess sem til stendur að ákæra um þau atriði sem fram hafa komið af hans hálfu og draga í efa lögmæti þeirrar kosningar sem hér fer fram. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom aðeins inn á þetta hér áðan. Ég hlýt að gera athugasemd við það í fyrsta lagi að okkur þingmönnum hér hafi ekki gefist nokkur tími til að kynna okkur svör forseta fyrir þessa kosningu, nema jú eina klukkustund eða svo. Ég hefði líka talið eðlilegt að hér hefði legið fyrir lögfræðilegt álit vegna þessara álitamála. En kosningunni er lokið og mér finnst það lýsa ákveðinni léttúð í garð þessa álitamáls að enginn skuli koma upp og reifa sjónarmið sem lúta að þessu og einnig að bréfi forseta skuli ljúka með þeim orðum, með leyfi forseta, „að öðru leyti ber að líta svo á að það sé í valdi landsdóms að úrskurða um þau atriði sem hér hafa verið nefnd“.

Ég hefði talið að við ættum hér að ganga algjörlega úr skugga um það hver lagaleg staða málsins væri eftir því sem hægt er áður en jafnafdrifarík ákvörðun og þessi er tekin en ekki að afgreiða það með þeim hætti: Ja, þetta kemur bara í ljós einhvern tímann síðar.