139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:41]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 27. apríl síðastliðinn mælti ég fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun sem á að gilda til ársloka 2013. Iðnaðarnefnd lauk umfjöllun sinni um málið á sumarþinginu, en það tókst ekki að ljúka umfjöllun um málið hér í þinginu fyrir lok september. Ég er því að endurflytja þessa þingsályktunartillögu með þeim breytingum sem meiri hluti iðnaðarnefndar gerði á fyrri tillögu. Breytingarnar eru tvenns konar: Í fyrsta lagi hefur orðalag tillögunnar verið fært í ályktunarform og í öðru lagi hefur nýju lykilsviði verið bætt við, þ.e. því 8., en það fjallar um eflingu menningarstarfs og skapandi greina.

Virðulegi forseti. Það er von mín að menn nái að klára umfjöllun um þetta mál á þessu þingi og að efnisleg, góð umræða fari fram um þessa stefnumótandi byggðaáætlun.

Þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun var lögð fram í samræmi við 7. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun. Þar segir að í byggðaáætlun skuli gerð grein fyrir ástandi og horfum á þróun byggðar í landinu, en síðari hluti þingskjalsins fjallar einmitt um þau mál. Tillagan er að stofninum til unnin af Byggðastofnun, en náið samráð var haft við sveitarfélög og samtök þeirra, atvinnuþróunarfélög og fleiri, m.a. með kynningarfundum um allt land og opnu samráði.

Byggðaáætlun tekur að þessu sinni sérstakt mið af því að nú er unnið að gerð Sóknaráætlunar 20/20 fyrir alla landshluta. Byggðaáætlunin er því unnin með þeim hætti að hún megi fara inn í þá vinnu og verði þá innlegg í þá umræðu og sá kafli sem fjallar um atvinnuþróun og nýsköpun og að byggðaáætlunin verði þannig hluti af heildstæðri samræmingu opinberra áætlana og aðgerða sem geta stuðlað að eflingu samkeppnishæfni einstakra svæða á Íslandi sem og auðvitað landsins í heild.

Byggðaáætlunin grundvallast því fyrst og fremst á aðgerðum sem tengjast nýsköpun og atvinnuþróun, en þeir málaflokkar heyra akkúrat undir iðnaðarráðuneytið eða skarast við verkefni þess.

Meginmarkmið byggðaáætlunar er að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum. Til að ná markmiðum byggðaáætlunar eru í henni skilgreind átta lykilsvið og gerð grein fyrir 31 aðgerð sem verður síðan felld saman við aðra stefnumótun, t.d. á sviði menntamála, vísinda og tækni, nýtingu orkulinda, umhverfismála, samgöngu- og fjarskiptamála, ferðamála, landskipulagsmála og fleiri sviða.

Virðulegi forseti. Það hefur þróast þannig að gert er ráð fyrir því að meginþungi þessarar byggðaáætlunar séu vaxtarsamningarnir. Vaxtarsamningar hafa gefið gríðarlega góða raun, en nú eru orðnir til einir sex vaxtarsamningar þar sem nærsamfélagið tekur ákvörðun um úthlutanir á fjármunum til verkefna í sínu umhverfi. Þetta hefur gefið gríðarlega góða raun. Ég hef heyrt að þingheimur hafi almennt verið sáttur við þá þróun og er það afar vel. Ef eitthvað er sé ég til lengri framtíðar litið, að þegar betur árar hér á landi getum við nýtt þessa vaxtarsamninga á enn myndarlegri hátt heldur en gert hefur verið hingað til.

Þannig að hjartað í þessari byggðaáætlun eru vaxtarsamningarnir. Það er líka ánægjulegt að segja frá því, virðulegi forseti, að þó að hart sé í ári var gerður vaxtarsamningur við nýtt landsvæði á þessu ári, en það eru Suðurnesin. Nú í ágúst var ráðinn framkvæmdastjóri vaxtarsamningsins á Suðurnesjum og það er von okkar að menn geti á næstu vikum farið að auglýsa eftir verkefnum og umsóknum inn í vaxtarsamninginn.

Virðulegi forseti. Þá er líka stór hluti fjármuna ætlaður til byggðaáætlunar. Þeir fara í Impru hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Akureyri. Þetta hefur verið gert svona í gegnum tíðina og er enn en ætlunin er að breyta þessu þannig að Nýsköpunarmiðstöð muni smám saman taka yfir starfsemi Impru á Akureyri og að þannig sé hægt að nýta fjármuni sem ætlaðir eru í byggðaáætlun beint til verkefna en ekki reksturs eins og þarna á við.

Þá fer líka nokkuð stór hluti eða tæplega 30 milljónir á þessu ári og 30 milljónir árlega í fjölþjóðlegt samstarf eins og Nora og NPP sem síðan er endurúthlutað úr til verkefna hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég sé svo sem ekki ástæðu til að rekja einstök efnisatriði þingsályktunartillögunnar frekar, enda væri það svo sem endurtekning á þeirri ræðu sem ég hélt hér í vor. Ég lít svo á að ég sé að skila þessari byggðaáætlun inn til þess að iðnaðarnefnd geti klárað að fjalla um málið og að Alþingi geti lokið við málið hér og þinginu er ætlað að fara vel yfir þetta. Ég óska eftir því að góðar tillögur komi inn í þessa byggðaáætlun þannig að hún geti stutt myndarlega við atvinnuþróun og nýsköpun í landinu.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun vísað til iðnaðarnefndar þingsins.