139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:53]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo sannarlega á það mat sér stöðugt stað á öflugu þróunarsviði Byggðastofnunar. Þegar þessi byggðaáætlun fyrir árið 2010 var lögð fram var ekki komið fram fjárlagafrumvarp. Að sjálfsögðu hljóta áhrifin af fjárlagafrumvarpinu að verða metin til áhrifa á byggðir landsins þegar nýtt mat hefur verið gert. En hv. þingmenn verða nú að vera sanngjarnir. Það var ekki þannig að þróunardeildin eða Byggðastofnun gætu einfaldlega farið í það að leggja endurskoðað mat á þetta á örfáum dögum, en ég treysti því og veit að það fagfólk sem þar vinnur mun að sjálfsögðu gera það mat þegar réttur tími gefst til.

Svo vil ég minna hv. þingmenn á það að hingað til hefur það einfaldlega verið þannig að byggðaáætlunin hefur verið á hendi iðnaðarráðuneytisins, það er hárrétt, en verkefnin inn í hana hafa komið svona frekar skulum við segja lauslega frá öðrum ráðuneytum (Forseti hringir.) inn í byggðaáætlunina. Síðan er iðnaðarráðuneytinu ætlað að fylgja þeim eftir. Það fyrirkomulag hefur ekki gengið upp og hv. þingmenn og hæstv. fyrrverandi ráðherrar þekkja það mjög vel. Þess vegna erum við að ráðast í (Forseti hringir.) gerð Sóknaráætlunar 20/20 sem mun skila miklu betri árangri heldur en fyrirkomulag byggðaáætlunar hingað til.

(Forseti (RR): Forseti biður hæstv. ráðherra og hv. þingmenn um að virða ræðutímann.)