139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það stoðar hæstv. ráðherra lítt að skjóta sér á bak við það að fjárlagafrumvarpið sé svo nýlega komið fram. Hæstv. ráðherra er ráðherra byggðamála og hafði fullar upplýsingar um fjárlögin þegar þau voru afgreidd út úr þingflokkum stjórnarflokkanna í ágúst. Það vekur undrun mína hvernig stjórnarliðar, sérstaklega úr Samfylkingunni, hlaupast undan merkjum vegna ábyrgðar sinnar á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Byggðastofnun er ekki á neinn hátt í stakk búin til að vinna þetta mat. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það. En í ljósi þess hvernig þetta skjal er unnið og hvernig þetta gagn er unnið, þá hefði ég talið eðlilegra að leggja það til hliðar og vinna það mun betur og þá í samræmi við þau lög sem um þetta gilda. Ég þekki ágætlega til þess hver afstaða stjórnar Byggðastofnunar var til þessa plaggs, einfaldlega vegna þess að ég sat í stjórninni þegar umsögnin til ráðuneytisins var gefin. Það svar þekkir hæstv. ráðherra jafn vel og ég.