139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:56]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmönnum er í lófa lagið nú þegar málið er komið til umfjöllunar í nefnd að gera á því breytingar. Nú er málið komið til þingsins og ég óska eftir því að hv. þingmenn leggi þá fram tillögur til breytinga á því, kalli til þær upplýsingar sem þeir telja ónægar, miðað við þær forsendur sem uppi eru. Þeim er það algjörlega í lófa lagið og til þess eru líka þingnefndir og störf þingnefnda, til að bæta við það sem menn telja að ráðherrar hafi ekki skilað nægilega af sér hér inn í þingið. Þannig að ég óska eftir því og fagna því og tel að þar eigi þessi vinna að fara fram. Ég legg hér fram byggðaáætlun í ljósi þess að það er lögbundin skylda og samkvæmt lögum erum við komin tíu mánuði inn í byggðaáætlunina. Við erum þegar farin að setja fjármuni inn í þau verkefni sem hér er kveðið á um. Því skiptir máli að áætlunin sé kláruð í góðri sátt og samlyndi. Ég vonast til að þingið (Forseti hringir.) eigi eftir að ljúka því farsællega.