139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið á sömu nótum og félagar mínir hér vegna þess að mér finnst þetta verklag einfaldlega ekki ganga upp. Hér kemur ráðherra byggðamála og í lögum segir að hún eigi að gera þetta, með leyfi forseta:

„Í byggðaáætlun skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu.“

„Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu.“

Nú er staðan sú að í fjárlagafrumvarpinu er boðaður niðurskurður hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni þannig að menn óttast að byggð hreinlega leggist af í þeim bæjarfélögum, sveitarfélögum, héruðum landsins. Þetta mundi ég segja að væri almenn stefna í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu. Ég trúi ekki, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra ætli að koma hér og segja að (Forseti hringir.) 700 milljónir í ferðaþjónustu sem eru á hennar verksviði dugi til þess að mæta þessu. (Forseti hringir.) Ég er ekki að biðja hæstv. ráðherra um að fara yfir á annað málasvið. Ég er að biðja um að (Forseti hringir.) við höfum eitthvað til að tala um. Þetta dugar ekki byggðunum í landinu.