139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem gengur ekki og það sem dugar ekki er þetta verklag. Það hefur komið fram á mörgum af þessum íbúafundum, sem haldnir hafa verið út um allt land, að það er engin áætlun um áhrif þessa niðurskurðar á byggðir landsins, það er engin byggðaáætlun undirliggjandi og það er ekkert búið að reyna að meta það. Það er ekki kostnaðaráætlun, það er ekki áætlun um það hvaða áhrif þetta hefur á byggðirnar. Ef 70–80 konum í Reykjanesbæ verður sagt upp, hvaða áhrif hefur það á langtímaatvinnuleysi, eða á Höfn í Hornafirði, í Vestmannaeyjum? Þegar fjölskyldur flytjast í burtu er ekki nóg að segja: Við skulum bæta skilyrði til búsetu, við skulum setja þetta allt inn í stórar áætlanir, við skulum leggja 700 milljónir í ferðaþjónustu ef það verður enginn til að búa á þessum svæðum. Það er það sem ég er að kalla eftir.

Þingið er með þessa áætlun, algjörlega rétt. En mér finnst hún í rauninni vera marklaust plagg. Þetta segi ég ekki af pólitískri illkvittni í garð hæstv. ráðherra því að ég veit að hún leggur sig fram um að vanda vel til sinnar vinnu. (Forseti hringir.) En þetta eru bara stafir á blaði sem eru algjörlega marklausir þegar horft er á hvað raunverulega er að gerast í byggðum landsins.