139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:17]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir mjög margt sem hv. þingmaður sagði og vissulega þurfum við að hafa miklu skarpari sýn á byggðamálin og byggðaþróun í landinu öllu. Þess vegna legg ég málið fram eins og ég geri núna, ég legg skýran, skarpan verkefnalista á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar inn í kaflann um Sóknaráætlun 20/20. Ég ætla að fá að lesa upp nokkrar setningar sem þingmenn hér inni kannast eflaust við, með leyfi forseta:

„Efling sveitarstjórnarstigsins. Bætt fjarskipti. Athugun á stöðu byggðarlaga sem búa við viðvarandi fólksfækkun. Styrking atvinnuþróunar. Efling rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar. (BJJ: Efling heilbrigðismála.) Efling dreifmenntunar á öllum skólastigum. Efling símenntunar. Efling menningarstarfsemi. Bætt heilbrigðisþjónusta. Greining sóknarfæra hefðbundinna atvinnugreina.“

Þetta eru kaflaheiti sem eru heiti yfir einni til tveimur setningum á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá árinu 2005 sem var byggðaáætlun áranna 2006–2009.

Þessi byggðaáætlun virkaði aldrei, ekki frekar en byggðaáætlun 2002–2005. Þess vegna er það efni sem er í byggðaáætlun 2006–2009 endurtekið frá byggðaáætlun 2002–2005. Þess vegna leggjum við á okkur þá vinnu að fara í almennilega sóknaráætlun fyrir alla landshluta þar sem samgönguáætlun, áætlanir í menntamálum og áætlanir á sviði allra ráðuneyta koma saman í eina öfluga áætlun fyrir landið allt. Þannig fyrst getum við eflt byggðirnar í landinu, það er með skarpri yfirsýn yfir það sem er að gerast.

Byggðaáætlun hefur því miður, þrátt fyrir fögur fyrirheit, (Forseti hringir.) aldrei náð þessum tilgangi. Þess vegna verðum við að breyta vinnulaginu og það er það sem við erum að gera núna.