139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:20]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég get alveg tekið undir það með hæstv. ráðherra að breyta þurfi vinnulaginu en ég hallast því miður að því að fyrst þurfi að breyta hugarfarinu. Ég gat þess í ræðu minni áðan að það væru í rauninni ekki ný sannindi sem ég fór með um byggðaþróunina í landinu, það hefur átt sér stað á löngum tíma.

Mér sýnist hins vegar staðan vera sú að þessi þróun muni halda áfram ef áætlanir stjórnvalda, eins og þær birtast í fjárlagatillögum ársins, ganga óbreyttar fram, ekki bara með sama hætti og hún hefur gert heldur með miklu meiri þunga. Þess vegna kalla ég eftir að fólk fari að hugsa þetta með öðrum hætti en við höfum gert. Mér er alveg nákvæmlega sama hvað það er kallað eða í hvaða búning það er fært, staða mála er þannig í dag að hún kallar á tafarlausar aðgerðir. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvenær menn megi vænta þess að fá einhverjar tillögur í þessari svokölluðu sóknaráætlun.

Við erum að vinna með ótal áætlanir sem ég tek undir að megi einfalda miklu meira en hefur verið gert hingað til. Til viðbótar þessari spurningu spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún deili ekki þeirri skoðun minni miðað við þá umræðu sem ég veit að hæstv. ráðherra hefur skynjað að er vítt um land, að það kalli á tafarlaus svör stjórnvalda, þótt ekki væri nema að slá á þann ótta sem ríkir þar.