139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:22]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi byggðaáætlun frá 2002–2005 ætla ég að lesa upp meginstefin í henni fyrst ég las upp úr hinni áðan.

Þar segir:

„Stækkun og efling sveitarfélaga. Efling opinberra verkefna og þjónusta á landsbyggðinni. Athugun á búsetuskilyrðum fólks. Athugun á starfsskilyrðum atvinnugreina“ o.s.frv.

Þetta eru allt þekkt stef og síendurtekið efni á þinginu. Þess vegna erum við, ég og hv. þingmaður, sammála um að breyta þarf vinnulaginu. Þess vegna trúi ég á að sú vinna sem á sér stað við Sóknaráætlun 20/20 geti leitt til þess að við fáum öfluga yfirsýn yfir starfsemi allra ráðuneyta og hvaða áhrif það hefur á einstaka landshluta og landið í heild sinni. Því hefur byggðaáætlun því miður aldrei skilað, aldrei. Það er von mín að þegar það er komið undir forustu forsætisráðuneytisins geti þessi samhæfing átt sér stað. Ég vona að hv. þingmaður leyfi okkur alla vega að njóta vafans og gera heiðarlega tilraun til að ná slíkri yfirsýn. Það skilar okkur síðan markvissari vinnubrögðum hvað byggðir landsins varðar. Byggðaáætlun sem slík hefur ekki gert það hingað til, því miður.

Virðulegi forseti. Varðandi spurninguna um hvort ekki þurfi að senda skýr skilaboð er það í mínum huga alveg klingjandi klárt að auðvitað þurfa stjórnvöld að gera það á hverjum tíma. Á öllum tímum þarf að senda skýr skilaboð og það á að vera verkefni stjórnvalda hvort sem er Alþingis eða ríkisstjórna að senda skýr skilaboð til þjóðarinnar allrar en ekki síst skiptir það máli að við eigum gott samráð við hana á sem flestum sviðum og það var haft við vinnslu þessarar byggðaáætlunar.