139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór mikinn hér um að ég kveinkaði mér undan einhverri umræðu. Auðvitað geri ég það ekki. Ég verð hins vegar að biðja menn um að vera með báða fætur á jörðinni. Við erum að leggja í þann leiðangur að leggja fram öfluga stefnumótun fyrir alla landshluta sem heitir Sóknaráætlun 20/20. Hvers vegna gerum við það? Það er vegna þess að byggðaáætlun, sem átti að vera það tæki sem gæfi okkur öfluga yfirsýn yfir byggðaþróunina og gæfi okkur öfluga yfirsýn yfir starfsemi allra ráðuneyta og áhrif þeirra á alla landshluta, hefur ekki virkað. Hv. þingmaður veit það vel enda var hann ráðherra í ríkisstjórn sem lagði fram slíka byggðaáætlun og samþykkti slíka byggðaáætlun sem skilaði nákvæmlega engum árangri, enda var ekkert í henni annað en einhverjir frasar.

Við erum að sýna viðleitni til að breyta þessu með því að leggja fram áætlun um byggðamálin sem snýr að atvinnuþróun og nýsköpun þar sem eru raunhæf verkefni. Ég get staðið hér og fullyrt að hægt verður að ráðast í framkvæmd allra þessara verkefna. Hv. þingmaður stendur hér og segir: Já, þarna er að finna fínar hugmyndir, eins og t.d. ívilnanir út af fjárfestingum, en hvernig gagnast það landsbyggðinni? Hv. þingmaður þarf augljóslega að lesa heima. Það er rétt hjá honum að það er misritun í frumvarpinu en það er búið að samþykkja þetta, þetta er orðið að lögum. Þar er tekið mið af byggðakorti Evrópusambandsins þannig að þetta getur ekki átt við inn á höfuðborgarsvæðið. Í öðru lagi var það áhersla þess ráðherra sem hér stendur að frekari ívilnunum verði beitt til efnahagslega kaldari svæða á landsbyggðinni til að fá þangað inn nýjar fjárfestingar.

Virðulegi forseti. Við erum á fullri ferð við það að reyna að búa til tæki og tól sem gagnast í því að fá hreyfingu á atvinnulífið og uppbyggingu út um land allt. Hv. þingmaður kannast kannski ekki við margar þeirra af því þetta eru nýstárlegar leiðir. En ég bið hv. þingmann þá a.m.k. að kynna sér þær (Forseti hringir.) áður en hann segir hér að þetta skipti engu máli fyrir landsbyggðina, þegar þetta er beinlínis miðað við landsbyggðina (Forseti hringir.) og sérstaklega dreifðustu byggðirnar.