139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra er bara að búa sér til skjól. Hæstv. ráðherra er að vísa til þess að hér eigi að koma einhver töfraáætlun sem eigi að kallast 20/20 og eigi að redda öllum málum. Það er auðvitað ekki þannig. Hæstv. ráðherra getur ekkert komið sér í skjól með þessum hætti.

Ég vék meðal annars að því, og reyndi að hlaða lofi á hæstv. ráðherra með það, að margar áhugaverðar hugmyndir væru í þessari áætlun. En þær eru allar því marki brenndar að þær eru almenns eðlis og taka ekki með sértækum hætti á vanda landsbyggðarinnar. Það var það sem ég var að segja. Ég var að kalla eftir því að t.d. þær hugmyndir sem ég (Gripið fram í.) var að vísa hér til áðan. (Iðnrh.: Segja satt.) — Vill nú hæstv. ráðherra ekki stilla sig? Ég veit að hæstv. ráðherra er órólegur undir þessari umræðu og það skil ég vel, en ég vil biðja hæstv. ráðherra að stilla sig. (Gripið fram í.) Ég var að segja hér, ég var að vekja athygli á því, og ég ber ábyrgð á þeim orðum mínu, að þessar tillögur, sem hæstv. ráðherra leggur fram, séu ekki sértækar tillögur sem lúta sérstaklega að landsbyggðinni. Þetta eru örugglega ágætar hugmyndir sem lagðar eru til og geta gagnast samfélagi okkar og þar með landsbyggðinni, en þetta eru ekki sértækar aðgerðir í þeim skilningi sem ég var að að kalla eftir.

Ég spurði hæstv. ráðherra að því hvaða örlög biðu Byggðastofnunar eftir niðurskurð upp á fimmtung sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu. Ég spurði hæstv. ráðherra hvaða áhrif það hefði á rekstur einstakra þátta stofnunarinnar. Hæstv. ráðherra vísaði til þess að Byggðastofnun ætti til að mynda að hafa það hlutverk að skoða byggðaleg áhrif fjárlagafrumvarpsins, var að segja okkur að svara ætti kalli fólksins á landsbyggðinni og vekja með því von og bjartsýni. Það er allt saman gott og blessað. En ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra: Vill hæstv. ráðherra ekki vera svolítið nákvæmari í orðum sínum og segja okkur hvernig það verður gert hér á næstu dögum?