139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta skýra svar um Byggðastofnun. Þá liggur það alla vega fyrir að starfsemi Byggðastofnunar mun ekki raskast sem afleiðing af því að verið er að gera þessa miklu hagræðingarkröfu á hendur stofnuninni. Það eru meiri hagræðingarkröfur en almennt eiga við um stofnanir ráðuneytisins og starfsemi eins og glöggt má sjá; 16% niðurskurður í Byggðastofnun, 10% svona heilt yfir hjá iðnaðarráðuneytinu.

Varðandi lánamálin vil ég segja að ég mun ræða þau mál frekar þegar fyrirspurn frá mér, sem hæstv. ráðherra hefur til meðhöndlunar, verður svarað. Þá mun gefast tækifæri til að ræða stöðu lánahluta Byggðastofnunar, en ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra setti hann í algjört uppnám. Það er mikið áhyggjuefni vegna þess að Byggðastofnun hefur miklu hlutverki að gegna fyrir byggðirnar.

Megingagnrýni mín á það plagg sem byggðaáætlun er er fólgin í því að mér finnst hún ekki vera nægilega miðuð á markvissar aðgerðir sem beinast að byggðunum sjálfum. Ég fór viðurkenningarorðum um að þarna væri að finna áhugaverða hluti, sem skipta máli fyrir land og þjóð, en ég spurði að því hvernig ætlunin væri að beina þessum verkefnum sérstaklega inn á landsbyggðina. Þetta eru fín og áhugaverð verkefni en ég sé ekki í þessum tillögum hvernig þeim verður sérstaklega beint inn til landsbyggðarinnar.

Vaxtarsamningar, átak í ferðamálum, áhugaverð verkefni af því tagi sem ég hef verið hér að ræða, er ekki svar við þeim vanda sem landsbyggðin á við að glíma. Fækkun opinberra starfa um mörg hundruð á sama tíma og við höfðum verið að reyna að byggja upp opinbera stjórnsýslu, þjónustu, verkefni og störf úti á landsbyggðinni. Hér er greinilega verið að hverfa frá þeirri stefnumótun sem allir stjórnmálaflokkar stóðu í.

Ég vil að lokum mótmæla því sem hæstv. ráðherra sagði um byggðaáætlunina sem hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, (Forseti hringir.) Össur Skarphéðinsson, lagði fram af miklum metnaði, að hún hefði ekki haft nein áhrif. Það var fín áætlun og ég mótmæli þeim orðum m.a. fyrir hönd hæstv. fyrrverandi ráðherra.