139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[17:10]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Jú, ég er sammála hv. þingmanni og ég held að það eigi eftir að slá í gegn hjá salnum þegar ég segi enn og aftur að þess vegna erum við gera Sóknaráætlun 20/20, til að reyna að búa til betra tæki til þess að taka á þessum málaflokki vegna þess að þetta hefur ekki virkað sem skyldi. Það er svo einfalt að mínu mati. En hv. þingmaður og ég deilum þeirri skoðun að best væri ef við þyrftum ekki að lokka erlenda fjárfesta hingað til lands með ívilnunum eða að koma hreyfingu á innlenda fjármuni og innlendar fjárfestingar með því að bjóða upp á ívilnanir.

Staðreyndin er hins vegar sú að þegar maður skoðar erlendar fjárfestingar á Íslandi aftur í tímann eru þær ekki mjög beysnar. Þær eru á mjög þröngu sviði, aðallega á sviði álbræðslu.

Um tíma jukust erlendar fjárfestingar tengdar bankastarfsemi töluvert en þá komu fjármunir íslensku bankanna yfirleitt úr erlendum útibúum og aftur hingað inn. Með þessu tæki erum við að reyna að búa til aðdráttarafl fyrir minni og meðalstóra fjárfesta og á fjölbreyttari sviðum en við Íslendingar höfum þekkt hingað til. Vonandi vekur það athygli annars konar fjárfesta en hingað til á Íslandi sem fjárfestingarkosti. Það hlýtur að vera gott. Vonandi tekst okkur síðan að lokka nýja gerð fjárfestinga hingað til lands þannig að við þurfum ekki á ívilnunum að halda til lengri tíma þegar við erum búin að brjóta ísinn.

En eins og staðan er núna þurfum við á því að halda ef við ætlum að breyta fjárfestingarmunstrinu hér á landi.

Íslenska krónan hefur kannski verið helsti tálminn fyrir fjárfesta gagnvart Íslandi af því fjárfestingar hafa ekki verið miklar hingað til. Það er ekki bara út af hruninu, heldur er það almennt vandamál að á meðan við erum með íslensku krónuna held ég líka að við munum þurfa á (Forseti hringir.) öflugu tæki eins og ívilnunum að halda til þess að fá hingað erlenda fjárfesta.