139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[17:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af Sóknaráætlun 20/20. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég vildi óska þess að ég deildi sannfæringu hæstv. ráðherra um að þar séum við komin með rétta tækið, en ég óttast að við stöndum hér eftir nokkra mánuði eða ár þegar það tæki verður komið í notkun og ég fer með sömu ræðuna: Eigum við ekki að gera þetta einhvern veginn öðruvísi? Þær áætlanir eru kannski ekki alveg það sem okkur vantar.

Ég átta mig alveg á því að við erum í þannig stöðu núna að draumsýn mín um að við þurfum ekki að styðja og hvetja erlenda fjárfesta til að koma hingað, er ekki orðin að veruleika. Ég vann einmitt sem viðskiptafulltrúi hjá Útflutningsráði í Bandaríkjunum við að laða hingað erlenda fjárfesta. Það var ekki alltaf gert með því að bjóða þeim eitthvað, það var fyrst og síðast gert með því að kynna Ísland sem fjárfestingarkost. Ég veit að þar er unnið gott starf og það er mjög mikilvægt, ég deili því sjónarmiði með hæstv. ráðherra.

Við verðum að gera allt sem við getum til þess að koma atvinnulífinu í gang, og þar veit ég að við hæstv. ráðherra erum sammála, og hætta hártogunum eins og voru í fyrirspurnatíma áðan þegar hæstv. dómsmálaráðherra kom upp og vændi okkur sjálfstæðismenn um að einblína bara á álver, einblína bara á eitthvað eitt. Það er einfaldlega rangt. Suðurnesin, sem ég þreytist ekki á að tala um, mín heimabyggð, eru skólabókardæmi um svæði þar er litið til allra átta eftir tækifærum þó svo að álverið í Helguvík verði þar ákveðinn burðarás, það hjartastuðtæki sem þetta svæði þarf til þess að hrökkva í gang. Þess vegna vona ég og óska eftir því við hæstv. ráðherra að hún haldi þá fínu ræðu sem hún hélt hér áðan, (Forseti hringir.) við ríkisstjórnarborðið.