139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

38. mál
[17:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð um það frumvarp sem hér liggur fyrir og sá sem hér stendur er meðflutningsmaður að. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni, þingmanninum Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir hans hlut að málinu og það frumkvæði sem hann hefur sýnt í þessu efni og í því að halda uppi umræðu um mikilvægi þess að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í bönkum við afskriftir gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum fyrir utan það sem snýr að heimilum þeirra, séu gagnsæjar og að Alþingi sinni eftirlitshlutverki sínu þar um.

Ég held að þetta sé algerlega nauðsynlegur hluti af uppgjörinu — því að fara í gegnum það hrun og þá enduruppbyggingu sem við þurfum að fara hér í, bæði fjárhagslega og efnahagslega en ekki síður siðferðilega og samfélagslega — og það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að það sé lykilatriði í því að ekki sé alið á tortryggni um það sem gerst hefur innan veggja bankanna. Því er affarasælast til að losna við tortryggnina að birta einfaldlega upplýsingarnar um það sem gert hefur verið svo enginn þurfi að ganga að því gruflandi hvað þar hefur farið fram, enda á almenningur á Íslandi og allt atvinnulíf á Íslandi kröfu til þess að fá um það upplýsingar. Vegna þess að auðvitað er þetta gert í bönkum sem almannavaldið hefur að verulegu leyti verið eignaraðili að og gripið til mjög sérstakra og óvenjulegra lagaráðstafana til að tryggja rekstur á og yfirfærslu eigna og meðferð skulda og ýmsar aðrar sérstakar ráðstafanir sem kalla auðvitað á og krefja um ríkari upplýsingar fyrir þann almenning sem fyrir því er ábyrgur.

Ég hygg að það séu þessi sjónarmið sem einkum liggja til grundvallar því að við, ýmsir stjórnarþingmenn, höfum lagt þessu máli lið með því að gerast meðflutningsmenn þess. Ég tek undir með hv. þingmanni og vona sannarlega að það takist að ljúka þessu máli á þessu þingi. Það tókst ágætlega góð samstaða um svipaðar fyrirætlanir í efnahags- og skattanefnd í upphafi þessa kjörtímabils í tengslum við hið fyrirhugaða eignaumsýslufélag ríkissjóðs þar sem einmitt var mjög sterk krafa um gagnsæi og upplýsingar um afskriftir og sölumeðferð fyrirtækja. Hér þarf að bæta úr brýnni þörf á því tímabili sem þetta mál nær til, þeirra 14 mánaða sem hér um ræðir, og óskandi að þingið geti einfaldlega lokið þessu máli sem allra fyrst á þessu þingi, því að tortryggnin er ekki til þess að hjálpa okkur við að byggja upp samstöðu og traust í samfélaginu.