139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

38. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er hárrétt, við þurfum að birta upplýsingar um afskriftir vegna þess að í því felst það nauðsynlega aðhald, sem við þurfum að hafa á þessum tímum, með því starfi sem fram fer í viðskiptabönkunum. Í þeim stóru og afdrifaríku ákvörðunum fyrir framtíðina sem verið er að taka þar þurfa menn auðvitað að vita að það sem gert er verður ekki hjúpað einhverjum leyndarhjúp heldur einfaldlega upplýst og gert opinbert. Um leið vita auðvitað allir að hið erfiða verkefni bankanna er að afskrifa og setja fyrirtæki í sölumeðferð o.s.frv. og þar koma auðvitað oft upp álitamál og má deila um ýmislegt í því sambandi en engu að síður er ákaflega mikilvægt að farið sé í gegnum þessa vinnu og farið í afskriftir og unnið í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækjanna. Það er alger forsenda fyrir því að við náum endurreisn.

Hins vegar eiga ekki við um þær afskriftir hin hefðbundnu sjónarmið um bankaleynd eða önnur slík sjónarmið vegna þess að hér er verið að grípa til ráðstafana fyrir rekstrarfélög sem hafa í raun orðið gjaldþrota. Það með hvaða hætti þeim er forðað frá gjaldþroti með afskriftum og komið aftur í rekstrarhæft ástand er ekki einkamál og það er ekki bankaleynd. Það er samfélagsleg ákvörðun sem almenningur á rétt á að fá upplýsingar um.