139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

38. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það sem mönnum er kannski almennt ekki ljóst, í það minnsta ekki ef marka má umræðuna, að það verður að afskrifa. Við getum ekki komið hjólum atvinnulífsins af stað nema að fara í afskriftir. Við þekkjum dæmi þess að menn hafa ekki gengið nógu greiðlega í það verk, t.d. í Japan þar sem það hefur tekið þá áratug að vinna sig út úr kreppu sem þeir hefðu getað unnið sig út úr með hraði vegna þess að fyrirtækin voru of skuldsett. Menn voru í raun að fresta vandanum og þar af leiðandi jókst hann.

Það sem við þurfum að fara að átta okkur á er að þetta er verkefnið. Ef við ætlum að koma hlutum af stað verður að fara í fjárhagslega endurskipulagningu, það verður að afskrifa og það er verkefni bankanna að gera það. Til að tryggja að það sé gert með jafnræði að leiðarljósi er skynsamlegt að hafa það eins opið og mögulegt er.

Auðvitað verða álitaefni, það verða alltaf álitaefni. En það er miklu betra að mínu áliti að þetta sé uppi á borðum og að menn taki þá umræðuna í þeim tilfellum þegar eitthvað slíkt er í gangi, þ.e. að það sé álitaefni í stað þess að reyna að fara aðrar leiðir, hvort sem menn nota hugtakið bankaleynd eða eitthvað annað, því ég held að ef menn fara aðra leið sé það ávísun á tortryggni og úlfúð og ekki bara núna meðan þetta á að vera í gangi heldur um langa framtíð.

Virðulegi forseti. Ef það er eitthvað sem íslensk þjóð þarf ekki á að halda er það úlfúð og óeining og við eigum að miða að því að sameina þjóðina og ég tel þetta vera leið til þess (Forseti hringir.) og er sammála hv. þingmanni hvað það varðar.