139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

38. mál
[17:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka bara þá skoðun sem við deilum að það er mikilvægt að birta þessar afskriftir um leið og það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er mikilvægt að bankarnir séu duglegir við að afskrifa. Þær upplýsingar sem okkur berast núna um hve lágt hlutfall af lánasamningum er þannig að verið sé að greiða af þeim sýna okkur auðvitað svo ekki verður um villst að það að fara í gegnum þessa fjárhagslegu endurskipulagningu bæði fólks og fyrirtækja og afskrifa verulegar fjárhæðir er ekki bara mikilvægt fyrir heimilin og atvinnufyrirtækin og efnahagslífið þar af leiðandi í heild sinni heldur er það algerlega lífsnauðsynlegt fyrir fjármálafyrirtækin sjálf og bankana sjálfa vegna þess að það að vera með jafnónýtt lánasafn og fjármálafyrirtækin eru með í dag, þegar enn á eftir að endurskipuleggja skuldir þúsunda fyrirtækja og þúsunda heimila, veikir auðvitað stofnanirnar, undirstöðu þeirra og afl til að takast á við verkefni framtíðarinnar.