139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Fjárlagafrumvarpið er, eins og önnur stjórnarfrumvörp, lagt fram af ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með samþykki hennar og beggja stjórnarþingflokka. Þetta fyrirkomulag þekkir hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson mætavel sem fyrrverandi ráðherra og í sjálfu sér þarf ekki að hafa um það fleiri orð.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að fjárlagafrumvarp tekur iðulega breytingum í meðförum Alþingis og varla er til dæmi um það í þingsögunni að fjárlagafrumvarp hafi farið óbreytt í gegnum þingið frá því sem það var þegar það var lagt fram. Nú er þetta mál að sjálfsögðu á borði fjárlaganefndar og að lokinni vinnu nefndarinnar og samráði hennar við þá fjölmörgu aðila sem hún mun hafa samráð við, eins og eðlilegt er, kemur það að sjálfsögðu til afgreiðslu í þingsal. En ég ítreka það að fjárlagafrumvarpið er lagt fram af fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með samþykki hennar, með samþykki beggja stjórnarþingflokka.