139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Fyrir nokkru hitti ég hóp sænskra þingmanna og ræddi við þá um framtíð norræna velferðarkerfisins nú þegar svokallaðir hægri flokkar í Svíþjóð hefja sitt annað kjörtímabil. Sænsku þingmennirnir, þetta voru þingmenn vinstri flokkanna, sögðust ekki hafa áhyggjur. Allir Svíar væru fyrir löngu orðnir sósíaldemókratar í hjarta sínu og því væri enginn munur á hægri og vinstri stjórn.

Frú forseti. Eftir samtalið hef ég velt því fyrir mér hvort hið sama sé uppi á teningnum hér á landi eftir nær samfellda stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratugum. Það hefur t.d. valdið mér vonbrigðum að norrænu velferðarstjórninni hafi ekki tekist að ná samstöðu um að slá skjaldborg um heimilin. Skjaldborg sem felur í sér almenna leiðréttingu á mikilli eignatilfærslu frá skuldurum til fjármagnseigenda. Það hefur jafnframt vakið athygli mína að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki komið fram með skýra stefnu varðandi skuldavanda heimilanna. (Gripið fram í: Það er rangt.)

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort ástæðan sé sú að Sjálfstæðisflokkurinn sé sáttur við núverandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna. (Gripið fram í: Er ekki í lagi?) Í ljósi þessa vil ég biðja hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson um að skýra þingheimi frá því hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn að styðja almenna skuldaleiðréttingu sem mun færa skuldsettum heimilum aftur hluta af eignatilfærslunni sem orðið hefur frá þeim til fjármagnseigenda, eignatilfærslu sem varð af völdum verðbólguskotsins en ekki síst vegna þess að ríkisstjórn Geirs H. Haardes tryggði innstæður að fullu.