139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Það er af ýmsu að taka sem ræða má undir þessum lið og væntanlega veitir ekki af. Það sem ég ætla að nefna núna er það fjárlagafrumvarp sem liggur fyrir og er að sjálfsögðu á ábyrgð stjórnarmeirihlutans og ekki síst ríkisstjórnarinnar — sama hvort menn vilja viðurkenna það eða ekki þá er það frumvarp þannig fram sett.

Í frumvarpinu eru liðir sem eru hreint og beint galnir. Þá er ég fyrst og fremst að tala um þann niðurskurð sem boðaður er víða á landsbyggðinni varðandi heilbrigðisstofnanirnar. Verið er að fara með í gegnum þingið grundvallarbreytingu á því kerfi sem við höfum byggt upp í gegnum tíðina og lifað við, það er verið að fara með það í gegnum fjárlagafrumvarpið. Ekki er verið að leggja fram heildstæða stefnumótun eða tillögu um hvernig þetta kerfi okkar, heilbrigðiskerfið, á að líta út í framtíðinni. Sú umræða hefur ekki farið fram heldur er lagt til að skorin verði niður ímynduð þjónusta, í rauninni. Það er eins og þeir sem semja frumvarpið, og margir hv. þingmenn, átti sig ekki á því að víðast hvar á landsbyggðinni er búið að skera inn að beini, það er búið að skera af allt það sem heitir einhvers konar sérfræðileg umönnun eða eitthvað slíkt. Þetta snýst orðið um að halda lífi í fólki. Þetta snýst um lyflækningar, umönnun og þess háttar heilbrigðisþjónustu. Það er búið að skera allt hitt burt. Hvernig dettur mönnum þá í hug að koma fram með annað eins frumvarp? Þetta er alveg með ólíkindum.

Frú forseti. Við hljótum að krefjast þess, við hljótum alla vega að gera þá kröfu til okkar sjálfra, að þingmenn taki frumvarpið í sínar hendur og gerbreyti því. Ein og það liggur fyrir er það aðför að landsbyggðinni, dreifðri byggð um landið, og það þrátt fyrir að áratugum saman hafi menn barist fyrir því að fá að hafa sömu grunnþjónustu og lifa við sömu skilyrði og á höfuðborgarsvæðinu.