139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni skýr og greinargóð svör. Þetta er með því skýrasta og greinarbesta sem komið hefur frá hv. þingmanni þegar hann hefur verið spurður á virðulegu Alþingi. Ég er afskaplega ánægður með það og vil í fullri einlægni hrósa hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður sagði, ég hvet menn til að taka eftir því hvað hann sagði: Fjárlagafrumvarpið er lagt fram af fjármálaráðherra, nýtur stuðnings ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans enda er búið að kynna það fyrir þessum aðilum. — Nýtur stuðnings ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans enda er búið að kynna þetta fyrir þeim.

Ég hef heyrt af fundum úti um land þar sem stjórnarþingmenn eru að leita eftir stuðningsmönnum fjárlagafrumvarpsins. Það kannast enginn við það — ef undan er skilinn hv. þm. Björn Valur Gíslason sem er sérstakur aðdáandi fjárlagafrumvarpsins, en það er annað mál.

Hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson var ekki spurður einu sinni í gær, ekki tvisvar heldur þrisvar hvort hann styddi ekki örugglega frumvarpið. Og hverju svaraði hæstv. ráðherra? Öllu stjórnkerfinu var breytt til að koma honum í ráðuneyti, hvorki meira né minna, í miklum gassagangi hérna á nokkrum dögum, hverju svaraði hann? Nákvæmlega engu. Hér kemur fram hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og segir frá því, ég þakka hv. þingmanni fyrir því þetta einfaldar allt í umræðunni, að ríkisstjórnin stendur á bak við frumvarpið og styður það. Það var kynnt í ríkisstjórninni. Nákvæmlega það sama á við um stjórnarmeirihlutann. Hv. þm. Björn Valur Gíslason er ekki einn í þessu máli.