139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna umræðna um fjárlagafrumvarpið og stuðning við það finnst mér mikilvægt að rifja upp að með skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013, sem rædd var í júní í fyrra, voru lagðar stóru línurnar í niðurskurði og tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Áætlunin gerir ráð fyrir að á árinu 2011 verði meiri áhersla lögð á niðurskurð en á tekjuöflun og með hruninu gerðist það, eins og við þekkjum öll, að tekjurnar minnkuðu en vaxtakostnaður og framlög til atvinnuleysisbóta ruku upp.

Hallinn á ríkisfjárlögum er okkur dýr og það er nauðsynlegt að ná honum niður. Þrátt fyrir mikinn niðurskurð á árinu 2011 er gert ráð fyrir að vaxtakostnaður verði 15% af gjöldum, sem er stór hluti. Stefnumótun til framtíðar í stóru málaflokkunum svo sem í mennta- og heilbrigðismálum verður ekki flúin til að ná endum saman. Ramminn í fjárlagafrumvarpinu er skýr og hann verðum við að virða. Það verður hins vegar ákveðið í meðferð þingsins á fjárlagafrumvarpinu hvernig við hreyfum okkur innan hans.