139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir hetjulegar tilraunir að reyna að skella skuldinni á Sjálfstæðisflokkinn vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar. Það virðist hafa farið fram hjá hv. þingmanni að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í ríkisstjórn og hefur ekki verið um nokkurt skeið. Þetta virðist hafa farið fram hjá hv. þingmanni.

Það er ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á því að koma fram með tillögur sem eiga að leysa skuldavanda heimilanna. Við höfum lagt fram tillögur og talað fyrir þeim í eitt og hálft ár en ríkisstjórnin og ráðherrarnir sem hér sitja hafa ekki hlustað á þessar tillögur og aldrei tekið þátt í umræðum þegar þær hafa komið til tals í þinginu.

Það er rétt að það þarf að bregðast við skuldavanda heimilanna. Það þarf líka að skapa atvinnu og það þarf að koma atvinnulífinu af stað en hæstv. ríkisstjórn virðist vera fyrirmunað að skilja það. Ég veit að það eru rök fyrir því að skera af skuldum heimilanna en skuldugt heimili þar sem er fólk sem hefur ekki atvinnu græðir ekki á því að skuldir lækki lítillega.

Við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson vil ég segja — úr því að hann sagði að það væru varla dæmi fyrir því að fjárlagafrumvörp tækju ekki breytingum í meðförum þingsins þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni. Ég vil segja við hann að það eru varla dæmi um það í þingsögunni að ráðherra í ríkisstjórn treysti sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við fjárlagafrumvarp sem ríkisstjórn hans leggur fram.

Hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson var spurður í þrígang að því í ræðustólnum í gær hvort hann styddi fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp. Hæstv. ráðherra treysti sér ekki til þess að segja já. Þögnin ein segir sína sögu um ástandið á stjórnarheimilinu og um stuðninginn sem fjárlagafrumvarpið nýtur innan ríkisstjórnarflokkanna.