139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það gleður mig að hv. þm. Lilja Mósesdóttir skuli kalla eftir tillögum frá Sjálfstæðisflokknum um vanda heimilanna. Það kemur ekkert frá ríkisstjórn hennar. Þar er algjört aðgerðaleysi. Ég vil benda á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið með tillögur, t.d. um að lækka greiðslubyrði, auka atvinnu sem er meginatriðið og lækka skatta á millitekjufólk. Þetta hefur ríkisstjórnin ekki gert. Hún hefur hækkað skatta og staðið á móti öllum tillögum um atvinnu, öllum. Það er allt í limbói hjá hæstv. ríkisstjórn ef ég leyfi mér að segja svo.

Við fengum nýverið upplýsingar um að fjöldi þeirra sem hafa verið á atvinnuleysisskrá sl. sex mánuði er 7.270. Það eru 7 þúsund manns búnir að vera lengur en sex mánuði á atvinnuleysisskrá. Þetta er afrek núverandi ríkisstjórnar. Það er vitað að þetta fólk er í stórhættu vegna niðurbrots á sjálfsmynd, hræddir um að verða öryrkjar. Og það eru 4.534 búnir að vera tólf mánuði á atvinnuleysisskrá.

Nú spyr ég hv. þingmann, ef hann kemst aftur að: Hvað ætlar hann að gera til að auka atvinnu handa þessu fólki? Ætlar hann að fara í virkjanir, ætlar hann að fara að prjóna eða hvað vill hann gera?