139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma inn á það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vakti athygli á áðan, þ.e. aðförina að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Við erum búin að fara á nokkra fundi sem haldnir hafa verið víða um land þar sem fólk er nánast í losti. Það er verið að skera niður um tugi prósenta og vega að innviðum samfélaganna. Bæði móttökurnar og mætingin sem er á fundina segir okkur allt um það hversu fólki er misboðið og brugðið.

Mig langar hins vegar að benda á að í þessari umræðu hefur ekkert samráð verið haft við forstöðumenn stofnana, forstöðumenn sveitarfélaga eða forstöðumenn stofnana eins og Landspítalans og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem eiga að taka við verkefnunum. Þannig er þessi gegnsæja og opna stjórnsýslan sem ríkisstjórnin boðar.

Til þess að kóróna allt saman langar mig að segja frá því að við vorum á fundi í hv. fjárlaganefnd í morgun. Síðustu orðin sem bæjarstjóri Norðurþings sagði við okkur voru: Svona setja menn ekki fram — þið verðið að koma fram við fólkið á landsbyggðinni eins og það sé venjulegt fólk en ekki afgangsstærð. Það sló mig mikið að heyra hann sagði þetta og lýsa ástandinu í samfélagi sínu þar sem fólk er nánast grátandi um allan bæ.

Við ræddum breytingar á Stjórnarráðinu fyrir nokkrum vikum síðan og þá var verið að sameina ráðuneytin. Mig langar til að taka eitt dæmi úr fjárlagafrumvarpinu sem sýnir það að í nýju innanríkisráðuneyti, sem var sameinað úr dóms- og kirkjumála- og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, er hagræðingarkrafan á aðalskrifstofu þessara ráðuneyta annars vegar rúm 3% og hins vegar rúm 4% — þó að sameina eigi ráðuneytin. Og hæstv. mannréttindaráðherra, eins og ég kalla hann núna þessa dagana, er með tvo aðstoðarmenn. Það liggur fyrir skýr vilji ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans (Forseti hringir.) hvar þjónustan við íbúana í landinu eigi að vera.