139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Hér er meðal annars rætt um skuldavanda heimilanna. Mér er spurn: Er núverandi ríkisstjórn virkilega alvara þegar hún ræðir skuldavanda heimilanna? Hvað gerir hún samhliða? Hún hækkar gjöld á bifreiðar sem fara beint inn í lánin. Hún hækkar gjöld á áfengi og tóbaki sem fara beint inn í lánin. Hún hækkar skatta sem dregur úr fjármunum fólks til þess að borga niður lánin og taka þátt í neyslu samfélagsins.

Hérna megin tölum við um skuldavanda heimilanna, að við ætlum að lækka höfuðstólinn og gera hitt og þetta. Hinum megin er ríkisstjórnin að hækka allt sem hægt er að hækka. Það fer beinustu leið inn á höfuðstól lánanna. Mér er spurn: Er Alþingi alvara í umræðunni sem fer hér fram? Er okkur alvara að tala svona í kross, vekja væntingar fólks í landinu, hægra megin að sjálfsögðu, og draga úr öllu vinstra megin? (Gripið fram í.)

Erum við að tala sama tungumál og fólkið í landinu? Ég held ekki. Ef okkur er alvara að taka þátt í að koma að skuldavanda heimilanna með einhverjum hætti hækkum þá ekki aðra skatta sem hækka höfuðstólinn. Lækkum ekki persónuafslátt fólks og tökum út verðtrygginguna. Finnum heildarlausn þannig að fólkið í landinu finni fyrir því að á þessum stað talar fólk í alvöru um að lækka skuldavanda heimilanna en ekki í einhverjum sýndarlausnum og hirða svo hlutina hérna megin.

Þetta er óþolandi fyrir fólkið í landinu (Forseti hringir.) hvar sem það býr. (Gripið fram í.)