139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[14:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir frumkvæði að þessari fyrirspurn til ráðherra. Í stað þess að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út úr og fá svör sem oftast skila litlu þar sem hæstv. ráðherra hefur verið þekktur fyrir hvers kyns útúrsnúninga og sniðugheit ætla ég að leggja fram nokkrar viðbótarspurningar og svara þeim sjálfur.

Er stefna ráðherra í samræmi við sjálfbærar veiðar? Nei, hún er það ekki. Frjálsar veiðar, óheftar veiðar leiða til rányrkju.

Er stefna ráðherra í samræmi við stefnu Hafrannsóknastofnunar? Nei, hún er það ekki. Hafró lagði til ákveðinn kvóta í samræmi við þá stefnu að nýta stofna með þeim hætti að þeir vaxi og dafni og skili eðlilegum afrakstri í veiðum.

Er úthafsrækjan stofn sem er verulega vannýttur, stofn sem má veiða niður — og það má þá taka þá umræðu um skötusel og makríl sem hér hefur farið fram? Nei, svo er ekki. Langan tíma hefur tekið að byggja upp veiðanlegan stofn, veiðanlegan stofn í þeim skilningi líka að veiðar og vinnsla séu arðbær.

Er líklegt að frjálsar veiðar muni skila meiri arðsemi? Nei, við þekkjum söguna. Sóknarkerfi eru alltaf dýrari, það er erfiðara að koma vörunni á markað og við fáum jafnframt lægra verð auk þess sem samkeppnisaðilarnir fá tæki í hendurnar til að keppa við okkur veifandi þessum vottorðum sínum um sjálfbærar veiðar sem við höfum ekki.

Er líklegt að aðferðafræði ráðherrans skili meiri stöðugleika í störfum í byggðarlögunum? Nei, það er öruggt að þessi aðferðafræði skilar óstöðugleika og óvissu.

Er stefna ráðherrans lögleg? Nei, hún er það ekki. Fyrir liggja lögfræðiálit sem segja það.

Að lokum er ein spurning til hæstv. ráðherra. Hún er ein og hún er skýr: Hvenær ætlar ráðherra og ráðuneyti að draga þessa stefnu til baka og gefa út aflamark samkvæmt lögunum?