139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[14:54]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri hreyfingar – græns framboðs er talsvert mikið fjallað um fiskveiðimál. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Veiðiheimildir skulu ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni.“

Síðar segir í samstarfsyfirlýsingunni um markmið ríkisstjórnarinnar að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða skuli hafa það fyrst og fremst að markmiði að stuðla að vernd fiskstofna, hagkvæmri nýtingu, treysta atvinnu o.s.frv. Að lokum segir í samstarfsyfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin telur brýnt að treysta í sessi siðræn viðhorf í umgengni við hafið og auðlindir sjávar í ljósi þess að maðurinn er hluti af náttúrunni og verður að umgangast hana af ábyrgð.“

Virðulegi forseti. Það er fátt við frjálsar eða réttara sagt takmarkalausar veiðar sem tekur undir og styður þessi markmið ríkisstjórnarinnar. Ég vil gera greinarmun á frjálsum veiðum annars vegar og veiðum án takmarkana hins vegar eins og er reyndin varðandi það sem kallað er frjálsar rækjuveiðar. Frjálsar rækjuveiðar sem svo eru kallaðar eru því andstæðar sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar og þær eru andstæðar hagsmunum flestra í þessari grein, svo sem samtökum fiskvinnslustöðva, að ég held allra samtaka sjómanna fyrir utan samtök útgerðarmanna sem hafa lagst gegn þessu. Veiðar af þessu tagi verða aldrei til frambúðar, það vitum við. Takmarkalausar veiðar eru ekki af hinu góða að mínu viti. Það á að stýra veiðum, þær eiga að hafa ákveðið lokatakmark, upphaf og endi, ef (Forseti hringir.) við ætlum að ná fram þeim markmiðum sem við setjum okkur í samstarfsyfirlýsingunni.