139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[14:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að taka þetta málefni til umræðu utan dagskrár.

Stærsta spurningin er einmitt ein af þeim þremur spurningum sem hv. þm. Kristján Möller spurði hæstv. ráðherra um. Hvað mun hæstv. ráðherra gera þegar 7 þús. tonna kvótanum sem Hafrannsóknastofnun leggur til verður náð? Að sjálfsögðu svaraði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra af gömlum vana ekki þeirri spurningu. Það er grundvallaratriðið í þessu máli. Hvað mun gerast eftir að 7 þús. tonna aflamarkinu er náð? Það er frægt viðtal eins fréttamanns við hæstv. ráðherra þar sem verið var að reyna að draga þetta upp úr honum. Hann hefur ekki svarað því enn. Það stendur upp á hann og þess vegna vil ég ítreka þessa spurningu hv. þm. Kristjáns Möllers til hæstv. ráðherra: Hvað mun hann gera þegar búið verður að veiða 7 þús. tonn?

Hitt er svo annað mál að það er alveg með ólíkindum að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli ganga fram með þessum hætti. Nú er atvinnugreinin rækjuiðnaður á Íslandi búin að eiga í mjög miklum erfiðleikum, það varð mikil aukning í eldi, það varð hækkun á eldsneytisverði og lækkun á heimsmarkaðsverði sem gerði það að verkum að mörg þessara fyrirtækja lentu í mjög miklum erfiðleikum og því miður fóru mörg þeirra á hausinn.

Núna er smáljós í myrkrinu, nú hefur rækjueldið gefið eftir og menn sjá fram á að þeir geti hugsanlega komið undir sig fótunum aftur. Hver eru þá viðbrögð hæstv. ráðherra? Auðvitað verður að eyðileggja þetta. Það verður að skemma fyrir þessum fyrirtækjum, að þau eigi að sjálfsögðu ekki neina von í framtíðinni, og setja þetta fram með þessum hætti.

Við skulum líka átta okkur á því að einfryst rækja er mjög mikils virði markaðslega séð því að það eru ekki margir sem geta boðið upp á einfrysta rækju til sölu á erlendum mörkuðum. Nei, það skal líka eyðilagt. Þeir aðilar sem vinna í rækjuvinnslunni verða að gera samninga marga mánuði og jafnvel ár fram í tímann um að skaffa ákveðið hráefni sem nú er búið að setja í uppnám og þeir geta ekki staðið við ef fram heldur sem horfir. (Forseti hringir.) Niðurstaðan er einfaldlega sú, virðulegi forseti, að þetta mun verða þjóðhagslega óhagkvæmt fyrir alla.