139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[14:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að stofna til þessarar umræðu.

Hjá flestum þingmönnum sem hafa talað hefur komið fram mikil gagnrýni á þá ákvörðun ráðherra að fara þessa leið. Það sem maður saknar varðandi þessa ákvörðun er í raun rökstuðningur fyrir því að fara þessa leið. Hæstv. ráðherra hefur reyndar sýnt að hann er óhræddur við að fara óhefðbundnar leiðir varðandi sjávarútvegskerfið, mörgum okkar til mikillar armæðu og flestum þeirra sem starfa í þessari grein, en hann hlýtur að þurfa að koma með rökstuðning fyrir því að fara þessa leið.

Líkur benda til þess að þetta sé ekki gert með hagkvæmni greinarinnar í huga, ekki gert til að hámarka arðinn út úr greininni. Hvað er þá á bak við það að fara þessa leið? Eftir því hljótum við að kalla. Við hljótum að þurfa að stýra því varðandi þessa tegund í auðlindinni okkar, rækjuna, hvernig við nýtum hana og veiðum eins og með allar aðrar tegundir í hafinu. Það gengur ekki að fara í ólympískar veiðar, eins og hv. þm. Kristján L. Möller nefndi áðan, með þessa tegund frekar en aðrar. Við höfum sýnt fram á það í gegnum tíðina að við stundum sjálfbærar veiðar. Við erum að reyna að hafa hér hagkvæma útgerð, hagkvæmt fiskveiðistjórnarkerfi, þannig að þjóðin og að sjálfsögðu þeir sem eru í þessari grein hafi eitthvað upp úr því að starfa í henni. Það er ekki hægt að ætlast til neins annars. Hæstv. ráðherra verður líka að segja okkur það hreint út ef hér er verið að boða einhverja grundvallarbreytingu á því hvernig núverandi ríkisstjórn ætlar að nálgast fiskveiðistjórnarkerfið. Ég trúi ekki að svo sé, en það er mjög mikilvægt að rökstuðningurinn fyrir þessum veiðum, óheftu veiðum að mér sýnist, komi skýrt fram svo við velkjumst ekki í vafa um hver stefna ráðherra er í raun og veru.