139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

fundarstjórn.

[15:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að beina því til virðulegs forseta að hann beiti sér fyrir því að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Búið er að taka utandagskrárumræðu um þetta mikilvæga mál, hv. þingmenn hafa fært mikinn og sterkan rökstuðning fyrir máli sínu. Ráðherra hefur fengið einfaldar spurningar sem óskað er svara við. Hann fer algjörlega fram hjá málinu í allri þessari umræðu, í hálftímaumræðu fer hann algjörlega fram hjá málinu.

Það er algjörlega óþolandi að ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn skuli komast upp með svona vinnubrögð. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sennilega metið í slíkri framkomu gagnvart þinginu og það er algjörlega óviðeigandi að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér þetta. Við getum ekki búið við það, hv. þingmenn eða Alþingi Íslendinga, að ráðherrar komi upp og tali algjörlega út í móa, svari ekki nokkru og taki ekki nokkurt tillit til þeirra spurninga sem þingmenn leggja fyrir þá. Slík vinnubrögð mega ekki líðast, virðulegi forseti. Ég skora á virðulegan forseta að beita sér fyrir því að hæstv. ráðherra breyti vinnubrögðum sínum í þessum málum.