139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

fundarstjórn.

[15:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Gunnarsson benti á, það er náttúrlega algjörlega óþolandi og ólíðandi að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli hvað eftir annað ekki svara einföldum spurningum sem beint er til hans.

Hv. þm. Kristján Möller, sem var málshefjandi utandagskrárumræðunnar, bað um eitt svar. Ég ítrekaði spurningu hv. þingmanns af því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svaraði henni ekki í fyrri ræðu sinni. Hv. þm. Kristján Möller spurði aftur í seinni ræðu sinni en samt sem áður gat hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki svarað þeirri spurningu.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal benti á, það er algjörlega úr takti við það sem við ræddum varðandi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að Alþingi veiti framkvæmdarvaldinu eitthvert aðhald, að einföldum spurningum skuli ekki vera svarað. Það staðfestist líka í þessari umræðu, af því að hv. þm. Kristján Möller upplýsti að sér þætti þetta vera misráðið, að hæstv. sjávarútvegs- (Forseti hringir.) og landbúnaðarráðherra hefur væntanlega ekki kynnt málið í ríkisstjórn (Forseti hringir.) og hvað þá heldur í þingflokkunum. Hvers konar vinnubrögð eru það? Ég hvet hæstv. forseta (Forseti hringir.) til þess að beita sér fyrir því að hæstv. ráðherra sýni okkur alla vega þann sóma að svara einföldum spurningum því að annars er þessi liður algjörlega tilgangslaus.