139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir að vera kominn með þetta mál inn í þingið. Það er mjög mikilvægt að tryggja það að um leið og fólk skilar inn umsókn um greiðsluaðlögun verði frestun á öllum aðfararbeiðnum og fjárnámi eða uppboði hjá viðkomandi einstaklingum.

Hins vegar vil ég spyrja ráðherrann hvort komið hafi til umræðu við sýslumenn sem fara með uppboðsbeiðnir að þegar uppboðsbeiðnir koma inn, og raunar eftir fyrstu auglýsingu, að sýslumenn kæmu þeim upplýsingum á framfæri við umboðsmann skuldara þannig að hann gæti haft samband við viðkomandi skuldara.

Embætti umboðsmanns skuldara er nýtt og enn þá mjög undirmannað og margar umsóknir berast því. Ég vil spyrja hvort skoðað hafi verið að leita eftir samstarfi, eins og gert er í Svíþjóð, við sveitarfélögin sem sinna félagsþjónustunni. Þar eru starfsmenn sem eru vanir að fara í gegnum fjárhag skjólstæðinga sinna, vinna fjárhagsáætlanir með þeim og aðstoða eftir bestu getu. Eins og fyrirkomulagið er í Svíþjóð eru það raunar sveitarfélögin sem fara með greiðsluaðlögunarferlið og vinna umsóknirnar og koma þeim síðan á framfæri við þann sem framkvæmir hina lögbundnu greiðsluaðlögun.

Síðan vil ég líka spyrja ráðherrann um hvað sé í vændum varðandi ábyrgðarmenn. Svo virðist vera, samkvæmt þeim dómum sem hafa verið að falla í dómskerfinu, að greiðsluaðlögun gildi ekki gagnvart ábyrgðarmönnum. Það gæti þýtt að málafjöldinn hjá umboðsmanni skuldara gæti aukist enn meira því það er mjög algengt að fólk hafi skrifað undir fyrir börnin sín.