139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:18]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og að vekja athygli á þeim málum sem hún spurði um. Það er rétt og það hefur komið fram í umræðu m.a. við dómsmálaráðherra og formann sýslumannafélagsins, að fylgja þarf því eftir að vakin sé athygli á úrræðunum sem í boði eru þegar fólk fær tilkynningu um uppboð. Ástæða er að halda því til haga og vekja athygli á því að sýslumenn, áður en umboðsmaður hringdi núna í þá sem áttu von á uppboðum, hafa líka haft samband við þá sem hafa lent með eignir sínar á uppboði og hringt á mörgum svæðum.

Varðandi mönnunina hjá umboðsmanni skuldara þá er verið að ráða þar inn fólk af fullum krafti og einnig leitað til aðila utan embættisins, lögmanna, til að sinna þessari þjónustu. Hugmyndin um samstarf við félagsþjónustuna hefur líka komið fram þar. Auðvitað hefur samstarfið verið mjög gott en rætt hefur verið að leita aðstoðar embættanna með formlegum hætti. Rætt hefur verið við umboðsmann skuldara um að setja upp útibú á Suðurnesjum, þ.e. í Keflavík, hjá sýslumanni eða félagsþjónustunni svo fleiri mál verði afgreidd og fólk fái leiðbeiningar og hjálp varðandi þessa þjónustu.

Hv. þingmaður vekur athygli á mjög mikilvægu máli sem er hluti af því sem verður að leysa á næstu dögum en það eru ábyrgðarmenn og lánsveð. Það er eitt af því sem getur eyðilagt úrræðið eða skemmt það alla vega, þótt það verði alltaf skárra en að lenda í gjaldþroti. Það er algjörlega óviðunandi ef menn fá niðurfellingu lána í greiðsluaðlögun að veð falli ekki niður með sama hætti og ekki sé gengið að ábyrgðarmönnum eða gengið á veðlánin. Þetta er ekki auðvelt mál því fallnir eru dómar sem munu fara fyrir Hæstarétt og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar er mjög sterkt. Leitað verður eftir samkomulagi um að reyna að tryggja að ekki verði gengið að þessum veðum (Forseti hringir.) eftir að greiðsluaðlögun hefur átt sér stað.