139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:22]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hér kemur fram að í Keflavík er verkefnið gríðarlega stórt og mikið og raunar á Suðurnesjum varðandi skuldavanda og vandamál almennt sem snúa að heimilunum. Þau mál hafa verið rædd við Þórólf Halldórsson sýslumann og hann var kallaður til sérstaklega til að fara yfir þetta með okkur. Hann er jafnframt formaður Sýslumannafélags Íslands ef ég veit rétt og hefur þar af leiðandi inngrip í þetta í heildina. Það ber að taka undir það sem hv. þingmaður Eygló Harðardóttir vekur athygli á að það skiptir mjög miklu máli að við nýtum okkur sem flestar stofnanir til að kynna úrræðin sem til eru þannig að a.m.k. verði látið reyna á hvort þau duga eða hvernig þau duga. Það gildir ekki bara um sýslumenn, það gildir líka um sveitarfélögin. Misbrestur hefur líka verið á því að bankarnir hafi nægjanlega þekkingu á úrræðunum sem sett voru á í sumar.

Við gjöldum líka þess að mörg úrræðanna voru áður hjá ráðgjafarstofu eða öðrum aðilum fyrir breytinguna í júní. Menn vitna oft í hvernig gekk með afgreiðslu mála áður en embætti umboðsmanns skuldara var stofnað. Það þvælist svolítið fyrir okkur að fólk hefur ekki trú á því að menn ætli að leysa hlutina og þess vegna leitar það sér ekki aðstoðar, sem er auðvitað alvarlegt mál. Á þessu verður að taka mjög föstum tökum, óháð öllum öðrum aðgerðum. Mikilvægt er að halda því til haga vegna þess að það verður alltaf stór hópur sem þarf að fara í gegnum þessi úrræði. Með þeim eru felldar niður skuldir og nemur það verulegum upphæðum.

Frekar um Suðurnesin, þá er velferðarvaktin, sem stofnuð var í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, einmitt á Suðurnesjum í dag að fara þar yfir málin og skoða hvernig haldið er utan um mál og þau afgreidd o.s.frv.

Eitt í lokin. Allar ábendingar sem koma hér fram eins og varðandi heimasíðuna, upplýsingastreymi til fólks og móttöku þess þegar það leitar aðstoðar, eru mjög mikilvægar. Ég þakka þær ábendingar og reyni að koma þeim til skila til viðkomandi embættis þannig að við getum betrumbætt hlutina. Verið er (Forseti hringir.) að koma fólki í nýtt húsnæði og bæta tölvukerfin þannig að þetta virki miklu betur en það gerir í dag.