139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér koma fram breytingartillögur við lögin sem við samþykktum 24. júní og félagsmálanefnd hafði unnið mjög mikið að. Ljóst er að ýmislegt þarf að laga í lögunum vegna þess að framkvæmdin hefur valdið mér og mörgum öðrum miklum vonbrigðum. Ég átti von á því, eftir að lögin frá því í sumar voru samþykkt, að engin fjölskylda ætti í rauninni að missa heimili sitt á uppboði. Ég hélt það. Það var markmiðið með lagasetningunni. Það hefur ekki gerst. Verið er að bjóða upp heimili í dag. Það segir mér að eitthvað hefur brugðist.

En áður en ég byrja að tala um það ætla ég að ræða um frumvarpið sem hér er komið. Það er tiltölulega einfalt og ég styð það mjög eindregið. Ég vil nefna nokkur tæknileg atriði. Hér er t.d. setning sem ég skil ekki alveg, með leyfi frú forseta:

„Móttaka umboðsmanns skuldara á umsókn leiðir þó ekki til tímabundinnar frestunar greiðslna ef umsókn umsækjanda um greiðsluaðlögun hefur verið hafnað á síðustu þremur mánuðum.“

Þetta virðist eingöngu ná til þeirra aðila sem hafa sótt um aftur í tímann þar sem frestunin nær líka til umsóknar sem umboðsmaður hefur móttekið fyrir gildistöku laga þessara. Þetta þyrfti að vera skýrara og vera þannig að þegar umboðsmaður hafnar umsókn verði frestun afturkölluð þá þegar.

Síðan þyrfti að vera tryggt að eftir að umsókn hefur borist verði stöðvun greiðslna þinglýst rafrænt hjá sýslumanni þannig að ekki líði tveir, þrír dagar. Þetta þarf hv. nefnd að kanna. Ég held að það sé mjög brýnt að tryggja þetta.

Það vantar líka inn í þetta að skuldarinn má ekki stofna til nýrra skuldbindinga á tímabilinu.

Eins og rætt var hér áðan ætti beiðni hjá sýslumanni um uppboð þegar að valda því að umboðsmaður skuldara fengi tilkynningu um að verið sé að bjóða upp heimili. Hann þarf náttúrlega fyrst að kanna hvort þetta sé í raun og veru heimili því nokkuð mörg uppboð eru vegna byggingaraðila sem hafa setið uppi með íbúðir og eru að selja þær. Sumar íbúðirnar eru í leigu þannig að leigusamningurinn fylgir sölunni og þá þarf ekki að gæta að því, þá er ekki verið að bera fólk út. Umboðsmaður skuldara þyrfti eiginlega að kanna í hvert skipti hvort skuldarinn búi í íbúðinni og sé að missa heimili sitt. Það finnst mér vera mikilvægast að koma í veg fyrir og það ætti eiginlega ekki að gerast, frú forseti, eftir að þessi lög hafa tekið gildi.

Það er eitt sem menn gleyma alltaf, við sem vinnum dags daglega í rólegu umhverfi, skuldum lítið eða ráðum við skuldir okkar og höfum þær kortlagðar og fínar, er hvað gerist í sálarlífi fólks sem fær beiðni um uppboð á heimili sínu. Það er mjög alvarlegt áfall fyrir einstakling og alla fjölskylduna þegar slík beiðni kemur vegna þess að yfirleitt er fólk búið að leita allra leiða og er komið algjörlega út í horn og sér enga lausn á sínum vanda. Þá gerist það sálfræðilega fyrirbæri að menn lokast. Menn loka sig af, þeir opna ekki bréf og sumir eru löngu hættir að opna bréf. Þeir svara ekki símanum. Stundum er búið að taka símann af þeim eða kortið og þeir hafa ekki efni á síma vegna blankheitanna. Fólk svarar ekki símanum, það svarar jafnvel ekki dyrabjöllunni. Þeir sem búa til svona reglur þurfa að átta sig á þessu, það þarf að hafa meira fyrir því að ná í fólk sem komið er í svona stöðu. Eiginlega ætti löngu áður en til uppboðs kemur að vera búið að hafa samband við umboðsmann skuldara.

Ég veit að margir lífeyrissjóðir hafa farið þá leið að hafa samband við fólk. Það kom fram í viðræðum við bankana um daginn að einn bankinn heimsækir fólk þegar það er komið í vandræði og bendir því á úrræði. Sá banki hefur áttað sig á því og sumir lífeyrissjóðirnir líka, þetta eru nú sjóðfélagar og félagsmenn í stéttarfélögum, að þegar fólk er komið út í horn lokar það á samskipti og mjög erfitt verður að ná í það. Við þurfum að átta okkur á því líka, við hér sem erum væntanlega með allar okkar skuldir á góðu róli, eigum við bara að segja í excel-skjali, frú forseti. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því.

Það þarf líka að samþykkja þá tillögu í skattamálum að niðurfelling á skuldum sé ekki skattskyld nema um gjafagerning sé að ræða. Venjulegt fólk sem fær felldar niður skuldir — niðurfellingin er ekki tekjur. Lánin hafa hækkað mikið vegna verðbóta og gengishækkunar, sem er reyndar fallin niður, eða vegna vaxta, kostnaðar og annars slíks. Það er ekki verið að gefa þessu fólki neitt. Þetta eru ekki tekjur. Það fær í rauninni niðurfelldan allan kostnaðinn sem kemur skattinum ekki við. Menn geta ekki dregið greidda vexti frá skatti, það er ekki hægt í fjármagnstekjuskattinum. Ég held að menn ættu að samþykkja þetta í hvelli svo það fæli ekki lengur fólk frá því að nota úrræðið að niðurfellingin sé skattskyld.

Það sem félagsmálanefnd þarf að gera fyrst og fremst, og við getum skoðað það í tengslum við frumvarpið, er að gera ferlið einfaldara. Ég hef bent á að hægt væri að hafa kröfuskrá sem kæmi í veg fyrir það niðurlægjandi ferli að auglýst sé eftir kröfum á viðkomandi einstaklinga. Það er mjög niðurlægjandi að þetta standi í Lögbirtingablaðinu og sumir lesa það með áfergju til að geta kjaftað um hverjir séu í vanda. Þetta fælir örugglega marga frá. Ég vil einfalda þetta allt saman og gera ferlið manneskjulegra og umfram allt að það ráði við þann mikla fjölda fjölskyldna sem þarf á úrræðinu að halda.

Undanfarið hefur verið talað um almenna skuldaniðurfellingu. Það er nú eitt meinið í viðbót, frú forseti, að alltaf er verið að lofa fólki einhverju sem það bíður eftir. Almenn skuldaniðurfelling dugar þessu fólki yfirleitt ekki neitt. Ekki neitt. Það hefur komið í ljós að hún kostar 200 milljarða. Það ætlum við að láta framtíðarskuldara greiða eða framtíðarlífeyrisþega eða bara eftir hendinni. Ég er ekkert viss um að framtíðarskuldarar vilji borga kannski eitt eða tvö prósent hærri vexti sem munar óskaplega mikið um, t.d. hjá Íbúðalánasjóði. Eða að framtíðarlífeyrisþegar vilji að lífeyrissjóðirnir skerði lífeyri til framtíðar því menn ætla að vera góðir við núverandi lífeyrisþega til að fá stuðning þeirra við hugmyndirnar. Það er líka algjörlega opið hvort kröfuhafar bankanna sætti sig við almenna skuldaniðurfellingu á Íslandi þegar ekki er almenn skuldaniðurfelling um allan heim þar sem þeir eru búsettir. Almenn skuldaniðurfelling hér dugar ekki neitt.

Svo vil ég bara í leiðinni, frú forseti, geta þess að almenn skuldaniðurfelling mundi örugglega gera allt vitlaust á Íslandi. Af hverju mundi allt verða vitlaust? Vegna þess að maðurinn sem skuldar 150 millj. í 200 millj. kr. einbýlishúsinu sínu, fengi 30 millj. niðurfelldar í 20% niðurfellingu en litli Jón sem býr í blokkinni sinni og skuldar 10 millj., hann fengi 2 millj. Hann yrði ekki sáttur við það. Eflaust mætti setja upp eitthvert hámark en það lagar ekki stöðuna hjá þeim sem skulda stórar upphæðir.