139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir frumvarpið. Það er brýnt að ná þessari breytingu á lögunum í gegn til að koma þeim sem eiga nauðungarsölur yfir höfði sér í skjól frá lánardrottnum.

Frá því hrunið varð, fyrir réttum tveimur árum, hefur skuldavandinn verið á dagskrá stjórnvalda; skuldavandi heimila og skuldavandi fyrirtækja. Í upphafi var gripið til bráðaaðgerða, þeirra aðgerða sem hægt var að grípa til, eins og t.d. hækkunar vaxtabóta, greiðslujöfnunar, sem lagaði greiðslubyrði að því sem hún var við hrun og ég gæti talið upp fleiri aðgerðir en ætla ekki að fara í það núna. Síðan tókum við það skeið þar sem við fórum í að semja lög eins og lög um sértæka skuldaaðlögun og lög um greiðsluaðlögun til að skapa þau tæki og tól sem þurfti til að laga skuldastöðu heimila að greiðslugetu.

Nú erum við komin á þann stað að við eigum orðið ágæta löggjöf en það þarf svo sannarlega að sníða af henni ákveðna agnúa því það hefur valdið vonbrigðum að hún hefur ekki uppfyllt þær væntingar sem við höfðum til hennar. Þetta vissum við í sjálfu sér, frú forseti, í vor þegar við samþykktum meðal annars þessi lög, en þetta er fasi sem við erum í. Við erum í nýjum aðstæðum þar sem við erum að feta okkur áfram til að finna þær leiðir sem eru hvað bestar og sem verja hvað best hagsmuni þeirra sem eiga í alvarlegum skuldavanda.

Í félags- og tryggingamálanefnd erum við ekki eingöngu að vinna með þetta frumvarp heldur erum við að vinna að því að gera breytingar á lögum um sértæka skuldaaðlögun og nefndin mun sjálf leggja fram frumvarp til breytinga á nákvæmlega þessum lögum, 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, á allra næstu dögum þar sem eru nokkrar mikilvægar breytingar sem þarf að gera til að lögin verði skilvirkari.

Við erum líka að vinna í því í nefndinni að kalla til allar lánastofnanir, bæði Íbúðalánasjóð sem og bankana. Við erum að kalla til sveitarfélögin, lífeyrissjóðina, sýslumenn og fleiri til að tryggja að allir séu að stefna í sömu átt, að upplýsingum sé miðlað og hver og einn viti hvað í hans valdi er að gera til að greiða fyrir þessu. Við verðum öll að stefna að sama markmiði og markmiðið er að losa fólk úr skuldafangelsi og tryggja húsnæðisöryggi. Ég vil vara við því, þegar við erum að ræða þessi mikilvægu verkefni, að það sé alltaf komið með umræðuna um almennar niðurfellingar eins og það sé sama málefnið. Þetta eru tvö gjörólík málefni. Annað lýtur að því að tryggja grundvallarvelferð fólks. Hitt hefur verið rökstutt með einhvers konar réttlætisrökum sem við vitum að mjög mismunandi sjónarmið eru um. Ég vil ítreka að þetta er hvor sín umræðan og hér erum við í verkefnum sem lúta að grundvallarvelferð heimilanna í landinu.

Í andsvari áðan kom hv. þm. Eygló Harðardóttir upp og ræddi um að sýslumenn ættu að hafa samband við umboðsmann skuldara þegar þeir vissu að eignir væru að fara á nauðungarsölu. Ég er algjörlega sammála henni. Þetta hefur nefndin verið að ræða og mun taka upp við sýslumannafélagið. Það er fjöldinn allur af svona tiltölulega einföldum atriðum sem hægt er að beita en það þarf að vera þannig að allir hafi sömu upplýsingarnar og að tryggt sé að allir séu á sömu vegferðinni. Ég hef engar áhyggjur af því að sýslumenn séu ekki tilbúnir til að gera þetta en það sem þarf að tryggja, og það erum við að reyna að gera, er að upplýsingar um það sem nauðsynlegt væri að gera komist til skila.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir tók líka upp málafjölda í Reykjanesbæ. Ég tek heils hugar undir með henni og fagna frumkvæði umboðsmanns skuldara og félags- og tryggingamálaráðherra að fara yfir það, í samvinnu við yfirvöld í Reykjanesbæ, hvernig hægt sé að flýta aðstoð við heimili sem eiga í alvarlegum vanda á Suðurnesjum. Við höfum, nefndin, hvatt til þess að þar verði sem fyrst opnuð skrifstofa umboðsmanns sem getur þá verið inn undir hjá félagsþjónustunni. Við ætlum svo sem ekkert að blanda okkur í það, það hlýtur að vera yfirvalda þar í bæ að meta hvar slíkri starfsemi er best fyrir komið.

Við skulum samt ekki gleyma því að þó að það sé alvarleg staða hjá mörgum heimilum í Reykjanesbæ eru jafnframt mörg mál í Reykjavík og í Hafnarfirði. Það er þó nokkur vandi á Akureyri og víðar um landið þannig að ég held að ekki sé ástæða til að flytja aðsetur embættisins. En ég tel mjög mikilvægt að embætti umboðsmanns skuldara sé í góðri samvinnu við félagsmálayfirvöld í sveitarfélögunum þar sem vandinn er mestur. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna, sem er grunnur að umboðsmanni skuldara, hefur langa sögu í samvinnu við sveitarfélög þannig að það ætti að vera hægt að byggja á þeim rótum.

Hér var líka rætt um lögfræðimenntun, að mikil áhersla væri lögð á lögfræðimenntun þeirra sem réðu sig til umboðsmanns skuldara. Ég er að vissu leyti ósammála þessu því að umboðsmaður skuldara þarf lögfræðimenntaða einstaklinga ef þeir eiga að vera í hlutverki umsjónarmanns og eins eru lögin um greiðsluaðlögun kveða á um. Sumt af þessu tengist því að það er mjög mikilvægt að hafa fólk með lögfræðimenntun og gjarnan reynslu af störfum sem varða kröfurétt og slíkt. En inn til umboðsmanns eru jafnframt ráðnar allra handa fagstéttir og starfsfólk með ýmsa reynslu. Má þar nefna sálfræðinga og félagsráðgjafa og fleira þannig að það er alls ekki svo að það embætti sé eingöngu að líta til lögfræðimenntaðra einstaklinga þegar það ræður fólk til starfa.

Það er kannski komið að því, frú forseti, að ég ætti að einbeita mér að því að ræða um það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég held að félags- og tryggingamálanefnd muni algjörlega vera sammála því að lögleiða þau ákvæði sem eru í frumvarpinu. Hv. þm. Pétur Blöndal ræddi nokkur atriði sem kannski þyrfti að gera breytingartillögu um og ég held að hann hafi fyllilega rétt fyrir sér. En ég vil líka benda á að í 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er kveðið á um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun og hvað skuldari skal gera á meðan greiðsluaðlögunar er leitað. Þar er talað um að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum og segja upp leigusamningum og öðrum samningum um útgjöld í framtíðinni. Ég held að slíkt eigi ekki við þegar svona undanþága er veitt eins og frumvarpið kveður á um. En ég held að við hljótum að þurfa að athuga hvort ekki þurfi að gera að skilyrði c- og d-lið 12. gr., um að láta ekki af hendi eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla og að ekki verði stofnað til nýrra skuldbindinga, á meðan á afgreiðslu umboðsmanns stendur.

Félags- og tryggingamálanefnd mun leggja kapp á að afgreiða þetta sem fyrst enda skiptir þetta gríðarlega miklu máli. Þetta er mikil réttarbót fyrir þá sem horfa fram á þær skelfilegu aðstæður að heimili þeirra er að lenda undir hamrinum hjá sýslumanni.