139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[16:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það frumvarp sem er til umræðu varðar þau heimili sem verst standa. Almenn leiðrétting leysir ekki vanda þeirra sem eru í hvað alvarlegustum greiðsluerfiðleikum. Því er mikilvægt að hv. þingmenn fæli ekki fólk frá því að leita sér aðstoðar.

Það er ekkert réttlátt við það þegar fjármálakerfi ríkis hrynur eða gjaldmiðill þess. Þetta tvennt gerðist á Íslandi fyrir réttum tveimur árum. Bankarnir hrundu, fyrirtæki fóru mörg hver lóðrétt á höfuðið, skuldir ríkissjóðs jukust þannig að mikið af skatttekjum okkar fer nú í vaxtagreiðslur í stað þess að fara í að hækka lífeyrisbætur, bæta þjónustu við fatlaða eða halda henni a.m.k. í horfi og við þurfum að fara í mjög sársaukafullar aðgerðir út af því áfalli sem ríkissjóður varð fyrir.

Sömuleiðis hafa íslensk heimili orðið fyrir miklu áfalli. Það á við um mitt heimili eins og örugglega heimili margra annarra þingmanna. Mikið gæti ég hugsað mér að einhver kæmi og tæki að sér hluta skulda minna. En áður en ég er tilbúin til þess verð ég að fá að vita hver á að taka yfir skuldir mínar. Íbúðalánasjóður er með megnið af íbúðalánum, ríkið á þann sjóð. Heimilin í landinu fjármagna ríkissjóð sem og fyrirtækin. Lífeyrissjóðirnir fjármagna Íbúðalánasjóð að miklu leyti og lán lífeyrissjóðanna til einstaklinga sem kaupa sér húsnæði. Lífeyrissjóðina eiga heimilin í landinu. Ég vil því vita og óska bara eftir því að hv. þingmaður fræði mig um það hver hann telur að eigi að taka við skuldum mínum. Síðan verð ég að leggja mat á hvort mér þyki sú yfirfærsla réttlát.