139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[16:05]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn hefði verið gjörsamlega óþörf ef hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefði hlustað á ræðu mína. Hver á að taka við skuldabyrðinni? Ég sagði það greinilega í ræðunni. Allir peningar í þessu þjóðfélagi, allir peningar í ríkissjóði, koma frá fólkinu í landinu. Við erum að tala um að jafna út til lengri tíma skammtímatjón sem fólki hér er uppálagt að standa skil á.

Hv. þingmaður veit ábyggilega jafn vel og sennilega betur en ég að á æviskeiði einstaklings fara milli 30% og 40% af ráðstöfunartekjum hvers einasta einstaklings í það að hafa þak yfir höfuðið. Þetta hlutfall hefur gjörbreyst með hruninu. Ég tala fyrir því og almennar aðgerðir miða að því að létta af fólki þessu áfalli og teygja það yfir lengri tíma. Það er enginn vafi í mínum huga á því að við verðum öll að borga fyrir allar aðgerðir sem við förum í. Þannig rekum við ríkið okkar, þannig rekum við landið okkar.